04. október 2011

Alþjóðlegur dagur upplýsingafrelsis

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, flutti erindi á ráðstefnu sem Skýrslutæknifélag Íslands hélt 28. september 2011 í tilefni af alþjóðlegum degi upplýsingafrelsis.

Ráðstefnan bar yfirskriftina „Réttur til að vita…“ en erindi Tryggva nefnist „Þurfum við nýja upplýsingaöld?“ Í því fjallaði hann m.a. um hvort þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu og sú umræðuhefð sem hefur skapast, þar sem oft virðist deilt um forsendur og staðreyndir, eigi rót sína að rekja til slælegs gagnsæis. Hann benti á að á síðustu árum hefur verið sett ýmiss konar löggjöf þar sem gert er ráð fyrir að borgararnir taki afstöðu og athafni sig á grundvelli fullnægjandi upplýsinga, s.s. um umhverfismál. Hann velti því fyrir sér hvort þetta breytta réttarumhverfi leggi ekki frekari skyldur á herðar stjórnvöldum til að tryggja gott aðgengi að upplýsingum en tók þó fram að það ætti ekki að vera hlutverk stjórnvalda að stýra umræðunni heldur að leggja til efnivið í hana með hlutlægum hætti. Tryggvi gerði viðhorf stjórnvalda og starfsfólks í stjórnsýslunni til aðgangs almennings að upplýsingum einnig að umtalsefni sínu. Glærur frá erindi Tryggva er hægt að skoða með því að smella á tengilinn neðst í þessari frétt.

Alþjóðlegur dagur upplýsingafrelsis hefur verið haldinn 28. september ár hvert frá árinu 2003. Markmiðið með deginum er að vekja fólk til vitundar um réttinn til aðgangs að upplýsingum hjá hinu opinbera.

Síðustu tvo áratugi hafa orðið framfarir hér á landi í þessum efnum, einkum með tilkomu stjórnsýslulaga, þar sem mælt er fyrir um rétt aðila stjórnsýslumáls á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er mál hans varða, og upplýsingalaga, þar sem fjallað er um rétt almennings til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum hjá stjórnvöldum og rétt aðila á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Umboðsmanni Alþingis berast þó að jafnaði nokkrar kvartanir á hverju ári yfir brotum stjórnvalda á þessum lagareglum.

Sem dæmi úr nýlegri framkvæmd hjá umboðsmanni má nefna álit frá 15. mars 2011 í máli nr. 6121/2010 þar sem umboðsmaður taldi að synjun Fjármálaeftirlitsins á að veita einstaklingi aðgang að gögnum í stjórnsýslumáli, er laut að hæfi hans til að gegna stöðu framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs, hefði ekki byggst á réttum lagagrundvelli. Í áliti frá 24. júní 2011 í máli nr. 5890/2010 taldi umboðsmaður að synjun félags- og tryggingamálaráðuneytisins á að veita umsækjanda um starf forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga aðgang að gögnum, er vörðuðu úrvinnslu ráðgjafa frá ráðningarfyrirtæki á starfsumsókn hans, hefði ekki verið í samræmi við lög. Í áliti frá 13. júlí 2011 í máli nr. 6073/2010 taldi umboðsmaður að synjun lyfjagreiðslunefndar á að veita lyfjafyrirtæki aðgang að tilteknum gögnum í stjórnsýslumáli, sem lyktaði með því að nefndin afturkallaði greiðsluþátttöku vegna sérlyfs, hefði ekki byggst á réttum lagagrundvelli. Þá taldi umboðsmaður, í áliti frá 14. júlí 2011 í máli nr. 6218/2011, að synjun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á að veita umsækjanda um starf upplýsingafulltrúa hjá ráðuneytinu aðgang að umsókn og ferilskrá þess umsækjanda sem hlaut starfið hefði ekki verið í samræmi við lög. Þá má nefna að í tilefni af athugun, sem lauk að fengnum skýringum stjórnvalda, gerði umboðsmaður athugasemdir við að Umhverfisstofnun hefði ekki skráð niður munnlegar ábendingar sem bárust um að tilteknir landeigendur hefðu bannað hreindýraveiðar á landi sínu, en það leiddi til þess að ekki var hægt að veita þeim upplýsingar um hver hefði tilkynnt þá til stofnunarinnar. Í annarri athugun, sem einnig lauk að fengnum skýringum, gerði umboðsmaður athugasemdir við að heilbrigðisstofnun hefði lagt fyrir einstakling að tilgreina með nákvæmari hætti en hann hafði þegar gert gögn sem hann óskaði aðgangs að. Umboðsmaður taldi að það hefði mátt ráða af beiðni hans og því hefði verið óþarft að biðja hann um nánari tilgreiningu. Í ljósi þess að tilgangur einstaklingsins með að óska eftir gögnunum var að leiða í ljósi hvaða gögn landlæknir hafði sent heilsugæslunni um hann með bréfi tilgreindan dag taldi umboðsmaður jafnframt vandséð hvernig viðkomandi einstaklingur hefði getað orðið við kröfunni.

Áhugasömum er bent á að frekari upplýsingar um framkvæmd umboðsmanns Alþingis má nálgast með því að smella á „Álit og aðrar niðurstöður“ í valmyndinni vinstra megin á þessari vefsíðu. Þar er hægt að leita í leitarvél og fletta í bæði atriðisorðaskrá og lagaskrá.

Tengill á glærur