24. apríl 2015

Staðlaðir álagningarseðlar og kæruleiðbeiningar

Í gegnum tíðina hefur umboðsmaður Alþingis veitt því athygli að oft skortir á að sveitarfélög leiðbeini málsaðilum um kæruheimildir innan stjórnkerfisins með fullnægjandi hætti. Þetta á m.a. við um ákvarðanir sem eru tilkynntar með stöðluðum seðlum eins og álagningarseðlum. 


Þegar málsaðila er veitt heimild til að kæra stjórnvaldsákvörðun til annars stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða breytt er það byggt á sjónarmiðum um réttaröryggi borgaranna. Reglur íslensks réttar um kæruheimildir eru hins vegar bæði margar og misjafnar. Tilteknar ákvarðanir sveitarfélaga er t.d. hægt að bera undir kærunefnd barnaverndarmála, úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og mennta- og menningarmálaráðuneytið, allt eftir efni þeirra, en almennt stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum er í höndum innanríkisráðuneytisins. Það er því oft erfitt fyrir hinn almenna borgara að átta sig á því hvar hann á að leita eftir endurskoðun á ákvörðun sem hann er ósáttur við án frekari leiðbeininga. Af þeirri ástæðu kemur fram í 20. gr. stjórnsýslulaga að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega skuli veita leiðbeiningar um nánar tilgreind atriði, þ. á m. um kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert beina skuli kæru. Sé þetta ekki gert getur það leitt til þess að víkja verður frá ákvæðum um lögákveðna fresti. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Umboðsmaður Alþingis lauk nýlega athugun sinni á kvörtun yfir álagningu sveitarfélags á sorphirðu- og eyðingargjaldi. Kvörtuninni fylgdi staðlaður álagningarseðill vegna gjaldsins, fasteignagjalds og vatnsgjalds en á honum var hvergi leiðbeint um kæruheimildir vegna þessara þriggja ákvarðana. Málsaðilanum var því bent á að hann yrði að leita til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála áður en umboðsmaður gæti tekið mál hans til meðferðar. Umboðsmaður ritaði hlutaðeigandi sveitarfélagi jafnframt bréf og minnti á skyldu sína til að veita kæruleiðbeiningar.

Þetta tilvik sem við fyrstu sýn virðist e.t.v. einfalt varpar vissu ljósi á vandann. Málsaðilanum var þarna tilkynnt í einu lagi um álagningu þrenns konar opinberra gjalda. Sorphirðu- og eyðingargjaldið er kæranlegt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kæruleið vegna fasteignagjalds er til ýmist til Þjóðskrár Íslands eða yfirfasteignamatsnefndar, eftir því hvort ágreiningur snýst um gjaldstofn eða gjaldskyldu, og kæruleið vegna álagningar vatnsgjalds er til innanríkisráðuneytisins.

Umboðsmaður fundaði fyrr í vetur með fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem m.a. var rætt um vanda af þessu tagi og mögulega aðkomu sambandsins að úrbótum á  honum. Umboðsmaður hefur því vakið athygli sambandsins á afgreiðslu sinni á málinu.

Að áliti umboðsmanns Alþingis er tilefni til að sveitarfélög hugi betur að þessu atriði í stjórnsýslu sinni.