Álit og aðrar niðurstöður

Atvinnuleysistryggingar. Skerðing atvinnuleysisbóta. Lögmætisreglan. Lögskýring.
(Mál nr. 9081/2016 og 9217/2017)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurðunum voru staðfestar ákvarðanir Vinnumálastofnunar um að skerða atvinnuleysisbætur til A annars vegar vegna makalífeyris sem hún fékk greiddan frá tilteknum lífeyrissjóðum vegna andláts maka hennar og dánarbóta sem hún fékk greiddar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og hins vegar vegna áframhaldandi greiðslna dánarbóta til hennar. A taldi m.a. að skerðing atvinnuleysisbóta vegna þessara greiðslna ætti sér ekki lagastoð.

Umboðsmaður vísaði til þess að í skerðingarákvæði í lögum væru tilgreindar ákveðnar greiðslur sem kæmu til frádráttar atvinnuleysisbótum, t.d. „elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar“ og „elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum“. Með lögum hefði síðan verið bætt við upptalninguna að hið sama ætti við um „aðrar greiðslur sem hinn tryggði [kynni] að fá frá öðrum aðilum“. Umboðsmaður taldi að þegar litið væri til orðalags skerðingarákvæðisins, forsögu þess og lögskýringargagna auk þeirra krafna sem gera yrði til skýrleika þeirra lagaákvæða sem skertu atvinnuleysisbætur að makalífeyrir frá lífeyrissjóðum og dánarbætur frá Tryggingastofnun fullnægðu ekki því skilyrði lagaákvæðisins að vera greiðslur frá „öðrum aðilum“ en með því orðalagi væri átt við greiðslur frá öðrum aðilum en þeim sem inntu af hendi þær greiðslur sem sérstaklega væru tilgreindar framar í ákvæðinu. Það var því niðurstaða umboðsmanns að úrskurðir úrskurðarnefndarinnar væru ekki í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram ósk frá henni um það, og leysa þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Jafnframt beindi hann því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þessum sjónarmiðum. Þá tók hann fram að ef sjónarmiðin ættu við í fleiri tilvikum þar sem stjórnvöld hefðu túlkað umrætt skerðingarákvæði þyrfti að endurskoða þá framkvæmd. Loks ákvað umboðsmaður að senda Vinnumálastofnun og velferðarráðuneytinu afrit af álitinu.Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð