Álit og aðrar niðurstöður

Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Almenn hæfisskilyrði. Leiðbeiningarskylda. Rannsóknarregla. Málshraði.
(Mál nr. 8898/2016)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð í tengslum við ráðningar í störf hjá lögreglustjóranum X, m.a. störf lögreglumanna í afleysingum. Kvörtunin laut m.a. að því að lögreglustjóri hefði ekki framkvæmt raunverulegt mat á hæfni A og getu til að gegna starfinu. Slík málsmeðferð fengi ekki samrýmst rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Jafnframt laut kvörtunin að þeim drætti sem varð á því að lögreglustjórinn svaraði erindum A.

Ríkislögreglustjóri veitti A lausn frá embætti lögreglumanns hjá lögreglustjóranum X árið 2010 vegna heilsubrests. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 2014 var ákvörðun ríkislögreglustjóra dæmd ólögmæt. Í skýringum lögreglustjóra til umboðsmanns kom fram að það hefði verið ljóst að A uppfyllti ekki lagaskilyrði um heilbrigði til að starfa sem lögreglumaður. Í því sambandi vísaði hann til vottorðs trúnaðarlæknis embættisins frá 2010 sem lá til grundvallar ákvörðun um að veita A lausn vegna heilsubrests á sínum tíma. Lögreglustjórinn óskaði ekki eftir upplýsingum um heilsufar A við meðferð málsins eða gaf honum kost á að leggja fram læknisvottorð eða gangast undir læknisskoðun.

Umboðsmaður taldi í ljósi forsögu málsins, framsetningar auglýsingar starfsins og þeirra upplýsinga sem fram komu í umsókn A, um að hann hefði árin 2012 og 2014-2015 unnið í öryggisdeild hjá tilteknu fyrirtæki, að lögreglustjóranum hefði borið að hafa frumkvæði að því að veita A kost á að leggja fram læknisvottorð eða gangast undir læknisskoðun áður en ákveðið var að hann fullnægði ekki lagaskilyrðum til að gegna starfi lögreglumanns í afleysingum. Málsmeðferð lögreglustjórans hefði að þessu leyti ekki verið í samræmi við leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður taldi að afgreiðslutími lögreglustjóra á erindum A hefði ekki verið í samræmi við óskráða málshraðareglu stjórnsýsluréttar. Loks taldi umboðsmaður að sú afstaða lögreglustjórans, að ekki bæri að rökstyðja ráðningar afleysingarmanna í lögreglu, væri ekki í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til lögreglustjórans að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð