Álit og aðrar niðurstöður

Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Rannsóknarregla. Jafnræðisregla. Skráningarskylda. Leiðbeiningarskylda. Vandaðir stjórnsýsluhættir.
(Mál nr. 8956/2016)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Menntaskólans X um að ráða Y í starf kennslustjóra. Kvörtunin laut m.a. að því að ákvörðunin hefði ekki verið nægilega vel undirbúin með vísan til rannsóknarreglu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Einnig hefði A ekki verið leiðbeint um rétt sinn til rökstuðnings í tilkynningu um ráðningu í starfið. Þá hefðu upplýsingar sem fram komu í samtali rektors og tiltekins álitsgjafa ekki verið skráðar.

Við mat á umsækjendum var m.a. litið til sýnar þeirra á starfið eins og hún birtist í umsókn. Í auglýsingu um starfið var þess ekki getið að þetta sjónarmið yrði meðal þeirra atriða sem horft yrði til við mat á umsækjendum. Í umsóknargögnum Y var sérstaklega gerð grein fyrir sýn hans á starfið. Slíkar upplýsingar komu ekki fram í umsóknargögnum A. Umboðsmaður taldi að ekki yrði dregin önnur ályktun en að sýn umsækjenda á starfið hefði verið meðal meginsjónarmiða sem matið byggðist á. Þá lægi fyrir að A var ekki veitt tækifæri til að setja fram hugmyndir sínar um þetta atriði í ráðningarferlinu. Án þess gat ekki farið fram heildstæður samanburður á umsækjendum á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um þau sjónarmið sem matið byggðist á. Málsmeðferð skólans hefði að þessu leyti ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður taldi að borið hefði að skrá upplýsingar um samráð rektors við skólanefnd í tengslum við ráðningu í starfið. Jafnframt taldi hann að borið hefði að skrá upplýsingar sem fram komu í samtali rektors og álitsgjafans í samræmi við upplýsingalög að því marki sem þær vörðuðu sjónarmið sem voru lögð til grundvallar við ráðninguna og mat á umsækjendum. Þá hefði borið að veita A leiðbeiningar um rétt sinn til að fá ákvörðunina rökstudda í samræmi við stjórnsýslulög þegar tilkynnt var um ráðningu í starfið. Loks taldi hann að það hefði verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að tilkynna A um ráðningu í starfið áður en öðrum starfsmönnum var tilkynnt ákvörðunin.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til menntaskólans að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð