Álit og aðrar niðurstöður

Skipulags- og byggingarmál. Birting á staðfestingu ráðherra. Frumkvæðisathugun.
(Mál nr. 7896/2014)

Í kjölfar niðurstöðu umboðsmanns Alþingis þess efnis að umhverfisráðherra hefði skort hæfi til að staðfesta nánar tilgreindar breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur var annar ráðherra settur til að fara með mál vegna endurskoðunar á staðfestingum skipaðs ráðherra. Settur umhverfisráðherra tók ákvörðun um að staðfestingar skipaðs ráðherra skyldu vera óhaggaðar. Umboðsmaður vakti í kjölfarið athygli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á því að ákvörðun setts umhverfisráðherra hefði ekki verið birt í Stjórnartíðindum. Í svörum ráðuneytisins af því tilefni kom fram sú afstaða að ekki væri þörf á að birta ákvörðunina þar. Umboðsmaður ákvað í framhaldinu að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvort þessi afstaða ráðuneytisins væri í samræmi við lög.

Umboðsmaður tók fram að samkvæmt skýringum stjórnvalda til hans hefði settur umhverfisráðherra bætt úr þeim annmarka sem verið hefði á staðfestingum skipaðs ráðherra og falist hefði í því að ráðherra hefði brostið hæfi til meðferðar hlutaðeigandi mála. Þessi annmarki hefði ekki lotið að afmörkuðum þáttum í undirbúningi málanna heldur að hæfi ráðherra til ákvörðunar í þeim. Því yrði ekki séð að settum umhverfisráðherra hefði verið unnt að öllu leyti að bæta úr honum án þess að staðfesta jafnframt sjálfur þær skipulagsbreytingar sem skipaður umhverfisráðherra hafði áður staðfest. Af ákvörðun setts umhverfisráðherra yrði ekki annað ráðið en að hann hefði tekið hlutaðeigandi breytingar til nýrrar meðferðar og tekið afstöðu til þeirra í samræmi við staðfestingarhlutverk ráðherra samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga. Þá yrði ekki annað séð en að niðurstaða setts umhverfisráðherra hefði verið sú að staðfesta bæri breytingarnar. Var það niðurstaða umboðsmanns að ákvörðun setts umhverfisráðherra hefði efnislega falið í sér staðfestingu hans á þessum breytingum sem skylt hefði verið að birta í Stjórnartíðindum samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga. Afstaða umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að ekki hefði verið þörf á því að birta ákvörðunina þar væri því ekki í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að bætt yrði úr skorti á birtingu ákvörðunar setts umhverfisráðherra í Stjórnartíðindum.Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð