Álit og aðrar niðurstöður

Eignir ríkisins. Uppsögn húsaleigusamnings. Valdmörk. Svör við erindum. Meinbugir.
(Mál nr. 8991/2016)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði m.a. yfir því að heilbrigðisstofnunin X hefði sagt upp húsaleigusamningi hans um læknisbústað. Hann taldi að uppsögn húsaleigusamningsins í þeim tilgangi að hækka húsaleiguna væri ólögmæt en í reglugerð um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins væri að finna ákvæði um hvernig skyldi hækka húsaleiguna og viðmiðanir í því efni. Erindi A um þetta atriði hafði ekki verið svarað af hálfu velferðarráðuneytisins en í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins kom fram að það gerði ekki athugasemdir við uppsögnina.

Við athugun umboðsmanns á málinu kom í ljós að hvorugt ráðuneytanna taldi sig vera „hlutaðeigandi ráðuneyti“ í skilningi laga og reglugerðar um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins en það ráðuneyti fer m.a. með framkvæmd reglugerðarinnar. Umboðsmaður taldi að A hefði því ekki fengið afstöðu til málsins frá „hlutaðeigandi ráðuneyti“ sem færi m.a. með eftirlit með því að heilbrigðisstofnunin X færi í öllu eftir ákvæðum reglugerðarinnar. Erindi A hefðu því ekki verið lögð í réttan farveg. Umboðsmaður tók fram að þar sem ekki hefði reynt á hvort leyst yrði úr ágreiningi ráðuneytanna innan stjórnsýslunnar teldi hann ekki tilefni að svo stöddu til að taka afstöðu til þess hvort ráðuneytið teldist „hlutaðeigandi ráðuneyti“ í málinu. Jafnframt benti hann á að velferðarráðuneytinu hefði borið að svara erindi A.

Þá tók umboðsmaður fram að hann fengi ekki séð að fylgt hefði verið eftir þeim breytingum sem gerðar hefðu verið á lögum um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins á árinu 1996 með breytingum á reglugerð um sama málefni. Hann vakti því athygli fjármála- og efnahagsráðuneytisins á þessu með það fyrir augum að reglugerðin yrði tekin til skoðunar að þessu leyti.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og að leyst yrði úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir í álitinu. Jafnframt beindi hann því til ráðuneytanna að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð