Álit og aðrar niðurstöður

Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Auglýsing á lausu starfi.
(Mál nr. 9040/2016)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) að segja sér upp störfum sem fulltrúa í afgreiðslu við stofnunina. Þegar A var sagt upp var starfandi sumarstarfsmaður í afgreiðslu með tímabundna ráðningu til að sinna sérstöku átaksverkefni. Um mánuði áður en uppsagnarfrestur A var liðinn réð LÍN sumarstarfsmanninn tímabundið í 12 mánuði til að ljúka verkefninu án þess að auglýsa starfið laust til umsóknar.

Umboðsmaður tók fram að tilteknar undanþágur frá auglýsingaskyldu í reglum um auglýsingar á lausum störfum tækju til starfa sem ættu að standa í tvo mánuði eða skemur og til starfa „við afleysingar“. Í skýringum LÍN hefði sérstaklega verið tekið fram að um væri að ræða tímabundin átaksverkefni sem hvorki A né aðrir starfsmenn LÍN hefðu haft með höndum og að ráðið hefði verið í starfið til tólf mánaða. Umboðsmaður taldi því að ekki hefði verið heimilt að ráða sumarstarfsmanninn áfram í tímabundið starf hjá stofnuninni án þess að auglýsa starfið laust til umsóknar.

Umboðsmaður tók fram að stjórnvöld yrðu að taka til skoðunar á grundvelli meðalhófsreglu hvort nauðsynlegt væri að segja starfsmanni upp störfum í tilefni af skipulagsbreytingum eða hvort unnt væri að beita vægara úrræði, eins og að breyta störfum hans þannig að hann fengi ný verkefni sem telja mætti honum samboðin. Umboðsmaður taldi það ekki ráða úrslitum hvort það starf sem þyrfti að manna væri tímabundið eða ótímabundið. Þá leysti það stjórnvald ekki undan því að leggja mat á hvort unnt væri að bjóða starfsmanni önnur verkefni þótt honum hefði nú þegar verið sagt upp ef hann væri enn í ráðningarsambandi við stjórnvaldið þegar aðstæður hjá stofnuninni breyttust. Af skýringum LÍN yrði ráðið að ekki hefði farið fram mat á því hvort draga hefði mátt uppsögn A til baka og/eða bjóða A tímabundið áframhaldandi starf við umrædd verkefni. LÍN hefði því ekki sýnt fram á að gætt hefði verið að meðalhófsreglu við uppsögn A.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til LÍN að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð