Álit og aðrar niðurstöður

Sveitarfélög. Skipulagsmál. Umferðamál. Meinbugir.
(Mál nr. 8678/2015)

Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir málsmeðferð Reykjavíkurborgar við ákvörðun um svokallaðar „Sumargötur 2015“. Með ákvörðuninni var ákveðið að loka tilteknum götum í miðbæ Reykjavíkur fyrir bílaumferð á tilteknu tímabili á ári hverju yfir sumartímann. Á meðan kvörtun samtakanna var til meðferðar hjá umboðsmanni samþykkti borgarráð að fyrirkomulagið skyldi verða að árlegum viðburði til frambúðar. Laut athugun umboðsmanns að lögmæti og heimild sveitarfélaga til að taka slíkar ákvarðanir um lokun gatna og vega innan þess.

Umboðsmaður tók fram að umræddar ákvarðanir kynnu eðli málsins samkvæmt að hafa meiri áhrif á hagsmuni þeirra sem eiga fasteignir á viðkomandi svæðum eftir því sem lokunin varar lengur. Hann tók einnig fram að í ljósi eðlis þessara ákvarðana og vegalaga teldi hann sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að Reykjavíkurborg hafi ekki heimild að lögum til að taka þessar ákvarðanir með þeim afleiðingum að það varði ógildingu viðkomandi ákvarðana. Í þessu sambandi benti umboðsmaður þó á að hér kynni að reyna á hvort það fyrirkomulag sem Reykjavíkurborg hefði festi í sessi teldist þess eðlis að það væri hlutverk lögreglustjóra að kveða á um fyrirkomulagið að fengnum tillögum sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði umferðarlaga. Þrátt fyrir framangreinda afstöðu sína tók umboðsmaður fram að þegar hagsmunir fasteignaeigenda og annarra væru hafðir í huga teldi hann rétt að skýrari ákvæði væru í lögum um heimildir sveitarfélaga til að loka tímabundið vegum í þágu annarra hagsmuna en þeirra sem beinlínis er fjallað í lögum. Af þeim sökum taldi umboðsmaður rétt að vekja athygli innanríkisráðherra og umhverfisráðherra á framangreindu.

Umboðsmaður fjallaði einnig um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að fjalla um ákvarðanir um Sumargötur í skipulagsáætlunum. Umboðsmaður tók fram að hann teldi ákvarðanir um Sumargötur í eðli sínu viðfangsefni sem eðlilegt væri að mörkuð væri stefna um í aðal- eða deiliskipulagi. Í ljósi þeirra upplýsinga sem væru að finna í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 taldi umboðsmaður sig þó ekki hafa forsendur til að gera þá athugasemd að í því væri ekki að finna fullnægjandi grundvöll fyrir ákvörðun um „Sumargötur 2015“. Aftur á móti taldi umboðsmaður að hann fengi ekki séð að það endurspeglaði með skýrum hætti þá varanlegu stefnu sem nú hefði verið mörkuð þar sem fyrirkomulagið Sumargötur væri fest í sessi til frambúðar. Umboðsmaður mæltist til þess að Reykjavíkurborg myndi fjalla með skýrum hætti um þá varanlegu stefnu sem mörkuð hefði verið um Sumargötur í aðal- eða deiliskipulagi fyrir viðkomandi svæði. Umboðsmaður ákvað einnig að vekja athygli umhverfis- og auðlindaráðherra á framangreindri umfjöllun með tilliti til þess að tekin yrði afstaða til þess hvernig rétt væri að tryggja betur að grundvöllur ákvarðana varðandi Sumargötur í Reykjavík yrði fundinn skýr staður í lögum og reglum um skipulag.

Umboðsmaður taldi rétt að árétta ábendingu sína sem hann setti fram í fyrra áliti sínu frá 21. júní 2016 í máli nr. 8687/2015 um að möguleikar borgaranna til að bera ákvarðanir sveitarfélaga undir ríkið væru almennt bundnar við stjórnvaldsákvarðanir og því teldi hann að huga þyrfti að eftirliti ríkisins að þessu leyti þegar í hlut ættu almennar ákvarðanir eða reglur sem sveitarfélögin setja á borð við samþykktir líkt á háttaði til í þessu máli.Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð