Álit og aðrar niðurstöður

Fangelsismál. Dagpeningar fanga. Gjaldskrá.
(Mál nr. 8308/2014)

Afstaða - félag fanga leitaði til umboðsmanns Alþingis á árinu 2014 og kvartaði yfir gjaldskrá um þóknun og dagpeninga fanga sem sett var á grundvelli þágildandi laga um fullnustu refsinga. Þar sem kvörtunin laut að atriðum sem settur umboðsmaður Alþingis hafði þegar tekið til athugunar að eigin frumkvæði ákvað umboðsmaður að bíða viðbragða stjórnvalda við þeirri athugun áður en hann tæki frekari afstöðu til framhalds málsins. Í kjölfar gildistöku nýrra laga um fullnustu refsinga ákvað umboðsmaður að taka tiltekin atriði kvörtunarinnar til nánari athugunar. Beindist athugun umboðsmanns að því hvort gjaldskrá um þóknun og dagpeninga fanga hefði verið sett í samræmi við ákvæði nýju laganna.

Umboðsmaður tók fram að með lögum um fullnustu refsinga hefði löggjafinn kveðið á um réttindi afplánunarfanga til tiltekinna greiðslna úr hendi hins opinbera og falið ráðherra að ákveða fjárhæð þeirra með útgáfu gjaldskrár. Þegar löggjafinn hefði með þessum hætti falið stjórnvaldi að útfæra nánar lögbundin réttindi borgaranna með útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla hvíldi sú skylda á viðkomandi stjórnvaldi að sjá til þess að slík fyrirmæli væru gefin út og birt í samræmi við lögin. Í skýringum innanríkisráðuneytisins kom fram að ráðherra hefði ekki sett gjaldskrá um þóknun og dagpeninga fanga eftir gildistöku nýju laganna. Taldi umboðsmaður að sá dráttur sem orðið hefði á því væri ekki í samræmi við lögin. Var það niðurstaða umboðsmanns að dregist hefði úr hófi að setja gjaldskrána.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til innanríkisráðuneytisins að gjaldskrá samkvæmt ákvæðinu yrði sett án frekari tafa.Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð