Álit og aðrar niðurstöður

Skattar og gjöld. Afgreiðslugjald. Sveitarfélög. Leiðbeiningarregla.
(Mál nr. 9021/2016)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að greiða þyrfti afgreiðslugjald til Reykjavíkurborgar til að fá svör við fyrirspurn er laut að túlkun á gildandi deiliskipulagi. Laut athugun umboðsmanns að því hvort gjaldtaka Reykjavíkurborgar í málinu hefði átt sér fullnægjandi stoð í lögum.

Umboðsmaður tók fram að samkvæmt skýru orðalagi gjaldskrár Reykjavíkurborgar og gjaldtökuheimildar í skipulagslögum, sem gjaldskráin sækti stoð í, væri ljóst að gjaldtaka samkvæmt þeim ákvæðum tæki til erinda sem lytu að breytingum á gildandi skipulagsáætlun eða gerð nýrrar skipulagsáætlunar. Hins vegar yrði ekki séð að erindi sem lyti að gildandi skipulagsáætlun, án þess að aðili hefði óskað eftir því að sveitarfélagið gerði breytingar á henni eða gerði nýja áætlun, gæti fallið undir gjaldtökuheimild samkvæmt þessum ákvæðum. Þá féllst umboðsmaður ekki á þær skýringar Reykjavíkuborgar að erindi A hefði falið í sér erindi um deiliskipulagsbreytingu enda var ljóst af erindinu og síðari samskiptum A við borgina að erindið snéri að því að fá skýringu á gildandi deiliskipulagi. Ef það hefði verið afstaða skipulagsfulltrúa borgarinnar að þær framkvæmdir sem væri lýst í erindi A yrðu ekki gerðar að óbreyttu deiliskipulagi hefði skipulagsfulltrúa verið rétt að leiðbeina A um að hún gæti lagt mál sitt í farveg beiðni um deiliskipulagsbreytingu.

Það var niðurstaða umboðsmanns að Reykjavíkurborg hefði ekki verið heimilt að krefja A um afgreiðslugjaldið. Hann beindi þeim tilmælum til sveitarfélagsins að endurgreiða A gjaldið ásamt því að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð