Álit og aðrar niðurstöður

Fangelsismál. Upplýsingagjöf til fanga.
(Mál nr. 8910/2016)

A, erlendur afplánunarfangi sem ekki var mælt á íslensku, leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun forstöðumanns fangelsis um að beita hana agaviðurlögum sem fólust í flutningi úr opnu fangelsi yfir í lokað fangelsi. Athugasemdir í kvörtun A lutu m.a. að því að henni hefðu ekki verið kynntar reglur fangelsisins á tungumáli sem hún gæti skilið. Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að A hefði verið gerð grein fyrir tilvist og inntaki allra reglna í fangelsinu munnlega á ensku og henni jafnframt afhent skrifleg samantekt reglnanna á íslensku. Umboðsmaður ákvað að afmarka umfjöllun sína í álitinu við það hvort þessi upplýsingagjöf til A við upphaf afplánunar hennar í fangelsinu hefði verið í samræmi við lög um fullnustu refsinga.

Umboðsmaður tók fram að samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005 hefði verið skylt við upphaf afplánunar að afhenda fanga og kynna, á því tungumáli sem hann skilur, þær upplýsingar sem tilgreindar voru í ákvæðinu. Af texta ákvæðisins yrði ráðið að skylt hefði verið að veita fanga upplýsingar bæði skriflega og munnlega. Með vísan til athugasemda í lögskýringargögnum að baki ákvæðinu, markmiðs þess og þeirra vísbendinga sem ráðnar urðu af samsvarandi ákvæði í nýjum lögum um fullnustu refsinga taldi umboðsmaður að skylt hefði verið samkvæmt því að bæði afhenda og kynna fanga samantekt reglna um þau atriði sem tilgreind voru í ákvæðinu á tungumáli sem hann skildi. Var það niðurstaða umboðsmanns að upplýsingagjöf fangelsisins til A við upphaf afplánunar hennar þar hefði ekki verið í samræmi við kröfur 1. mgr. 17. gr. laga nr. 49/2005.

Umboðsmaður tók fram að í áliti sínu frá 27. nóvember 2001 í máli nr. 2805/1999 hefði hann beint þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að leitast yrði við að ljúka við að framkvæma sem fyrst þær ráðstafanir til bættrar upplýsingagjafar til fanga sem ráðuneytið hefði boðað og lutu m.a. að því að útbúa upplýsingabækling handa íslenskum og erlendum föngum. Þessum tilmælum hefði verið fylgt eftir af hálfu Alþingis með lagabreytingum. Taldi umboðsmaður að a.m.k. í tilviki hlutaðeigandi fangelsisins hefði skort á að brugðist hefði verið með fullnægjandi hætti við þessum tilmælum. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til innanríkisráðuneytisins að gerð yrði úttekt á stöðu upplýsingagjafar til erlendra fanga í fangelsum landsins og gripið til viðeigandi ráðstafana af þess hálfu til þess að henni yrði sem fyrst komið í viðunandi horf samkvæmt gildandi lögum.

Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð