Álit og aðrar niðurstöður

Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Löggilding starfsstétta sem heilbrigðisstéttir. Stjórnvaldsákvörðun.
(Mál nr. 8940/2016 og 8942/2016)

Félögin A og B leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir ákvörðunum velferðarráðuneytisins um að synja umsóknum þeirra um löggildingu viðkomandi starfsstétta sem heilbrigðisstéttir. Í málinu lá fyrir sú afstaða ráðuneytisins að ekki hefði verið um að ræða stjórnvaldsákvarðanir í málum félaganna og því hefði stjórnsýslulögum ekki verið fylgt við meðferð þeirra.

Umboðsmaður tók fram að í lögum um heilbrigðisstarfsmenn hefði verið farin sú leið að skapa sérstakan farveg fyrir fagfélag að hafa frumkvæði að því að sækja um löggildingu viðkomandi starfsstéttar sem heilbrigðisstétt. Væri fallist á umsóknina væri sett reglugerð um starfsstéttina og í framhaldinu gætu einstaklingar sem fullnægðu skilyrðum hennar sótt um löggildingu. Því yrði ekki annað séð en að með lagaákvæðinu væri kveðið á um ákvörðun sem varðaði lagalegan rétt eða skyldur manna í skilningi stjórnsýslulaga. Þótt ákvörðun ráðherra beindist ekki að einstaklingi yrði sú ályktun dregin af ákvæðinu að hún beindist að tilteknu fagfélagi sem kæmi þá fram fyrir hönd félagsmanna sinna. Þá leiddi af ákvæðinu að bundinn væri endir á það lögbundna ferli sem hæfist með umsókn viðkomandi félags. Eins og lagagrundvelli þessara mála væri háttað yrði heldur ekki séð að ákvörðun um að synja umsókn um löggildingu væri aðeins tekin með eða væri liður í setningu reglugerðar heldur bæri að taka sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun í máli viðkomandi fagfélags. Með vísan til framangreinds og þess að umræddar ákvarðanir féllu vel að öðrum megineinkennum stjórnvaldsákvarðana var það álit umboðsmanns að þær teldust stjórnvaldsákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því að afstaða ráðuneytisins til þessa atriðis hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til velferðarráðuneytisins að taka mál félaganna til meðferðar að nýju, kæmi fram ósk um það frá þeim, og leysa þá úr málunum í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Jafnframt beindi hann því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.Skoða álitið í heild sinniTil bakaFlýtileiðir


TungumálSkipta um leturstærð